Kite.is
Saga flugdrekans Prenta Rafpóstur

Saga flugdrekans í stuttu máli 

Nákvæm tímasetning og uppruni flugdrekans er ekki þekkt en talið er að flugdreka hafi fyrst verið flogið í Kína fyrir meira en 2000 árum síðan. Sagan segir að fyrsti flugdrekinn hafi orðið til þegar kínverskur bóndi batt hattinn við höfuðið á sér með snæri til þess að hann fyki ekki burtu í vindinum.

Elstu skriflegu heimildirnar um flugdrekaflug eru frá um 200 fyrir Krist þegar kínverski hershöfðinginn Han Hsin flaug flugdreka yfir borginni sem hann var að ráðast á til að sjá hversu löng göng hermenn hans þyrftu að grafa til að komast inn fyrir varnir borgarinnar. Með þessa vitneskju gátu hermenn hans grafið nægilega löng göng til að koma óvininum á óvart og farið þannig með sigur af hólmi.

Kínverskir kaupmenn fluttu síðar flugdreka frá Kína til Kóreu, um Asíu og til Indlands. Á hverju svæði þróuðu menn mismunandi afbrigði af flugdrekum og notkun þeirra og menningarlegt hlutverk þróaðist í mismunandi áttir eftir svæðum.

Á tímum Silla kongungsveldisins í Koreu um árið 600 var hershöfðingjanum Gim Yu-sin gert að bæla niður uppreisn. Hermenn hans vildu hinsvegar ekki berjast þar sem þeir höfðu séð stórt stjörnuhrap á himnum og álitu það vera slæman fyrirboða. Til að ná aftur stjórn á hermönnum sínum notaði hershöfðinginn stórann flugdreka til að lyfta eldhnetti á loft. Þegar hermennirnir sáu þetta töldu þeir sig sjá stjörnuna sem hafði hrapað aftur á lofti, söfnuðust saman og brutu uppreisnina á bak aftur.

Flugdrekar bárust til Japan á 7. öld með Buddamunkum. Þar voru flugdrekar notaðir til að bægja frá illum öndum og til að tryggja góða uppskeru.

Flugdrekaflug varð mjög vinsælt í Japan á Edo-tímabilinu en þá fengu japanskir þegnar sem voru lægra settir en Samuræjar í fyrsta skipti að fljúga flugdrekum. Stjórn Edo (nú Tokyo) reyndi árangurslaust að draga úr þessari iðju hjá japönskum almenningi þar sem þetta þótti "draga athygli fólks frá vinnu sinni".

Japönsk flugdrekahátíð
Japönsk flugdrekahátíð

Ein saga sem gerðist fyrir um 300 árum segir frá þjófi sem notaði stóran flugdreka til að lyfta sér upp á þak á Nagoya kastala til að stela gullstyttu sem þar var notuð til skrauts. Þjófurinn náði þó einungis hluta styttunnar og náðist skömmu síðar þar sem hann stærði sig af afrekum sínum.

Fyrstu heimildir um flugdrekaflug á Indlandi er að finna í smámálverkum frá Mogul tímabilinu um 1500. Þar er að finna myndir af ungum manni sem notað flugdreka til að sleppa skilaboðum niður til unnustu sinnar sem var í haldi og einangrun frá honum og umheiminum.

Til eru margar sögur af því hvernig fólk í austurlöndum notaði flugdreka úr laufum til að flytja beitu fyrir vatnið til að veiða hornfisk. Í Pólýnesíu er til goðsaga um tvo bræður sem voru að kynna flugdrekann fyrir manninn þegar þeir lenda í flugdrekabardaga. Sá bróðir sem flaug flugdreka sínum hærra vann bardagann. Enn þann dag í dag eru haldnar keppnir þar sem sá flugdreki sem flýgur hæst er tileinkaður guðunum.

Flugdrekar á miðöldum

Marco Polo kynnti flugdrekann fyrir Evrópubúum í lok 13. aldarinnar. Teikningar frá því tímabili eru til sem sýna svokallaða drekaflugdreka í Evrópu. Sjómenn færðu einnig flugdreka til Evrópu frá Japan og Malasíu á 16. og 17. öld. Þóttu flugdrekar frekar forvitnilegir en höfðu að öðru leiti lítil áhrif á evrópska menningu.

Á 18. og nítjándu öld voru flugdrekar notaðir sem faratæki og tæki til vísindarannsókna.

Menn eins og Benjamin Franklin og Alexander Wilson notuðu þekkingu sína á flugdrekum til að læra meira um vindinn og veðurfræði.  Sir George Caley, Samuel Langley, Lawrence Hargrave, Alexander Graham Bell, og Wright bræður gerðu allir ýmis konar tilraunir með flugdreka og stuðluðu að framþróun flugvélarinnar.

Tilraunir með flugvélar

Bandaríska Veðurstofan notaði flugdreka sem vöru hannaðir af William Eddy og Lawrence Hargraves til að bera veðurathugunartæki og myndavélar til himins.

Einhver merkilegustu not af flugdreka á fyrri tímum má segja að hafi verið þegar skólastjóri að nafni George Pocock notaði tvo flugdreka til að draga vagn á yfir 30 kílómetra hraða á klukkustund. Þetta var árið 1822. Sumar ferðir hans voru um 160 kílómetra langar og þar sem vegatollar voru byggðir a því hversu margir hestar voru notaðir til að draga vagnana þá var hann undanþeginn vegatollum.

Eftirlitsmönnum í hernum lyft á loft Eftirlitsmönnum í hernum lyft á loft

Í fyrri heimstyrjöld notuðu breski, ítalski, franski og rússneski herinn allir flugdreka til merkjasendinga og til að fylgjast með óvinunum. Tilkoma flugvélarinnar gerði flugdreka fljótlega óþarfa í þessi verkefni en þýski herinn hélt áfram að nota flugdreka til að að bera eftirlitsmenn til himins af kafbátum þegar þeir komu upp á yfirborðið.

Björgun á sjó

Í seinni heimstyrjöldinni notaði bandaríski sjóherinn flugdreka í margvíslegum tilgangi. Flugdreki Harry Saul var notaður til að koma í veg fyrir að flugvélar gætu flogið of neðarlega yfir skotmörk og flugmenn sem höfðu hrapað í sjó settu "Gibson-girl" flugdreka á loft til að vekja á sér athygli. Þá var flugdreki Paul Garber notaður til merkjasendinga og í skotæfingar en sá flugdreki var stór stýranlegur tígullaga flugdreki.

Eftir því sem flugvélin festi sig í sessi þá voru flugdrekar notaðir í minna mæli í hernaði og vísindarannsóknum og meira til dægrastyttingar.

Rogallo vængur Dom Jalbert

Á síðustu 50 árum hefur áhugi á flugdrekum og flugdrekaflugi aukist mikið. Ný efni svo sem ripstop nælon, fíberrör, kolefnatrefjar ofl. hafa stuðlað að því að flugdrekar eru nú léttari, litríkari og endingarbetri en áður. Mikilvægar uppfinningar eins og flexi-vængur Francis Rogallo og foil Domina Jalberts hafa lagt grunninn að þróun svifdreka, svifvængja og fallhlífa.

Árið 1972 kynnti Peter Powell til sögunnar tveggja línu flugdreka. Segja má að tilkoma þessa flugdreka hafi markað upphaf flugdrekaflugs sem sports og hafi aukið áhuga almennings á flugdrekum og flugdrekaflugi. Áhugamenn gerðu til raunir með nýjar tegundir og útfærslur á flugdrekum sem gátu flogið hraðar, flogið nákvæmar og framkvæmt ýmsar kúnstir. Flugkeppnir þar sem menn kepptu við undirspil tónlistar varð vinsæl.

Stærri og kraftmeiri flugdrekar voru hannaðir og á 8. áratugnum hannaði Peter Lynn frá Nýja Sjálandi "buggy" úr ryðfríu stáli sem var dreginn áfram af flugdreka. Á níunda áratugnum urðu kraftdrekar sem notaðir eru á landi, á sjó og í snjó orðið æ vinsælli og árið 1999 notaði hópur manna flugdreka til að draga sleða á norður pólinn.
Ekkert bendir til þess að þróun á flugdrekum og flugdrekaflug eigi ekki eftir að halda áfram og ætti að verða spennandi að fylgjast með henni á komandi árum.

Peter Powell Stunt flugdreki
  
  
Birt með leyfi American Kitefliers Association 
Næsti >
© 2022 K I T E . I S
Joomla! is Free Software released under the GNU/GPL License.