Kraftdreki (yfirleitt kallað power kite eða traction kite á ensku) kallast almennt þeir flugdrekar sem hafa mjög mikla vindmótstöðu og toga þar af leiðandi mikið. Kraftdrekar eru venjulega frekar stórir og eru yfirleitt notaðir til að draga menn áfram ýmist á skíðum í snjó, á bretti á sjó eða á landbretti eða "buggy" á landi.
Helstu gerðir kraftdreka eru foil og LEI (Leading Edge Inflatable). Foil-kraftdrekar byggja á sömu tækni og fallhlífar þar sem vængur er saumaður úr efni (oftast úr ákveðnu næloni) með efra og neðra byrði. Milli þessara laga eru mörg lítil hólf, ekki ósvipað og í flugvélavæng. Ólíkt flugvélavængnum er kraftdrekinn að mestu opinn að framanverðu. Þetta er til þess gert að hleypa lofti inn í kraftdrekann til að hann fái á sig rétta lögun. Á LEI-kraftdrekum er fremsti hluti hans hinsvegar uppblásinn þannig að þeir drekar henta sérstaklega vel á sjó þar sem það er auðveldara að koma þeim á loft ef þeir lenda í sjónum. Þá eru LEI-drekar með einfalt lag af efni en ekki tvöfalt eins og foil-drekar. Þegar kraftdrekum er flogið er mjög miklvægt að sýna varkárni þar sem þeir geta valdið skaða ef ekki meðhöndlaðir á réttan hátt og í samræmi við aðstæður hverju sinni.
|