Kite.is
Heim arrow Greinar arrow Kraftdrekar arrow Fleygiferð á flugdreka
Fleygiferð á flugdreka Prenta Rafpóstur
Skrifað af Einar Örn Jónsson   

Flugdrekaíþróttin hefur gengið í endurnýjun lífdaga á undanförnum árum eftir að menn fóru að tvinna hana saman við aðrar greinar á borð við skíða- og snjóbrettaiðkun og brimbrettasiglingar. Í þessum greinum notast menn við svokallaða kraftdreka en það eru stórir flugdrekar með mjög mikla vindmótstöðu. Á Íslandi er að myndast samfélag áhugamanna um kraftdreka og má meðal annars nálgast upplýsingar um það á síðunum kiteland.net og vindsport.is

 

Fleygiferð á flugdreka

 

Hálfgert leynisport

Snjódrekaflug (snowkiting) hefur rutt sér til rúms hér á landi og skyldi engan undra þar sem hvorki skortir snjó né vind. Eins og nafnið gefur til kynna gengur íþróttin út á það að menn nota kraftdreka til að draga sig áfram á skíðum eða snjóbretti. Að sögn Einars Garðarssonar hjá Vindsporti stunda þó nokkrir Íslendingar íþróttina en ekki er þó til neinn formlegur félagsskapur í kringum hana. „Við erum nokkrir sem höfum verið að rotta okkur saman. Þetta er hálfgert leynisport,“ segir Einar og bætir við að hún sé aðallega stunduð á suðvesturhorni landsins en einnig séu nokkrir á Akureyri og á Ísafirði sem stundi hana.
Íþróttin er ung og sjálfur hefur Einar aðeins stundað hana í um þrjú ár. Engu að síður er áhuginn slíkur að hann er farinn að flytja inn og selja búnað auk þess að bjóða upp á snjódrekaferðir á Langjökli á sumrin. Fjölmargir útlendingar hafa komið til Íslands til að prófa íþróttina undir handleiðslu Einars og félaga hans. Á veturna hafa snjódrekaiðkendur meðal annars lagt stund á íþróttina á Bláfjallasvæðinu og á ísi lögðu Rauðavatni.
 

Auðvelt að stjórna drekanum

Einar segir auðvelt að hafa stjórn á drekanum og aðeins taki einn dag að læra réttu handtökin. „Maður hefur mjög góða stjórn á honum og getur beint honum hvert sem maður vill. Það er líka hægt að ferðast langar vegalengdir á þessu ef maður vill og maður getur náð miklum hraða. Ég hef náð 70 km hraða en erlendis hafa menn náð um 100 km hraða.“
Að sögn Einars hentar snjódrekaflugið jafnt þeim sem eru að leita að spennu og átökum og hinum sem kjósa að taka því rólegar. „Þetta býður til dæmis upp á mikla möguleika fyrir brettafólk til að stunda frístæl-æfingar og opnar því nýjar víddir,“ segir Einar.
Íþróttin er ekki með öllu hættulaus og dæmi eru um að slys og óhöpp hafi orðið vegna þess að óvarlega var farið. Mikilvægt er að stunda hana á opnum og öruggum svæðum þar sem ekki eru hindranir svo sem grjót eða mannvirki.

 

Brimbretti og kraftdrekar 

Í sjódrekaflugi (kitesurfing) er tvinnað saman brimbrettaiðkun og flugdrekaflug. Menn standa á bretti og eru dregnir áfram af kraftdreka á sjó eða vatni. Íþróttin er líkt og snjódrekaflugið frekar ung og eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar sem stunda hana að staðaldri hér á landi. Einn þeirra er Geir Sverrisson sem einnig hefur mikla reynslu af snjódrekaflugi. „Ef menn ætla að prófa þetta er sniðugt að byrja á snowkiting. Það er auðveldara að ná tökum á því og engin hætta á að maður sökkvi í vatnið,“ segir Geir.
Geir segir að fólki sé ráðlagt að taka námskeið í íþróttinni en reyna ekki að læra hana á eigin spýtur. Vandamálið sé hins vegar að hér á landi séu engin slík námskeið í boði.
Að sögn Geirs eru góðar aðstæður til að stunda íþróttina hér á landi. „Útlendingar sem koma hingað verða margir hverjir heillaðir af þessu. Hér er allt við höndina. Það er hægt að fara upp á jökul til að stunda snowkiting og svo eru fallegar sandfjörur fyrir kitesurfing,“ segir Geir. Talsverðan vindstyrk þarf til að stunda sjódrekaflug en hann er því miður ekki alltaf til staðar og segir Geir það mikinn misskilning að það sé alltaf rok á Íslandi.
 

Öryggið ofar öllu

„Það er mikilvægt að fólk læri að bera virðingu fyrir vindinum, kynni sér veðurspána og fari aðeins út þegar aðstæður eru réttar. Þá er stranglega bannað að vera einn á ferð ef eitthvað kemur upp á,“ segir Geir sem setur öryggið ofar öllu að gefnu tilefni. Sjálfur rifbeinsbrotnaði hann einu sinni illa í snjódrekaflugi og kunningjar hans hafa einnig slasast alvarlega í báðum greinunum. „Við vorum engu að síður þokkalega vanir. Það er líka oft talað um að það séu ekki byrjendur sem slasi sig heldur þeir sem eru lengra komnir vegna þess að þeir eru orðnir kærulausari og taka frekar áhættu,“ segir Geir. 
 

Grein eftir Einar Örn Jónsson í Blaðinu , miðvikudaginn 20. september 2006

 
< Fyrri   Næsti >
© 2022 K I T E . I S
Joomla! is Free Software released under the GNU/GPL License.