Kite.is


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vi­ h÷fum 1 gest tengda

Heim
NPW5 - frumraunin Prenta Rafpˇstur
Skrifa­ af Gos   

Mig hafði lengi langað til að reyna smíða eða sauma flugdreka upp á eigin spýtur.  Spurningin var hins vegar hvernig flugdreka væri best að byrja á.  Ég sá fram á að það yrði auðveldast að búa til flugdreka sem hefði  engar stangir og þar sem ég er hrifinn að 4-línu flugdrekum ákvað ég, eftir talsvert grúsk á netinu, að gera Nasa Para Wing eða NPW5.  NPW5 er 4-línu kraftdreki  sem hægt er að sauma í hvaða stærð sem er. 

Fyrir þá sem ekki vita má nefna að upprunalega voru þessir drekar hannaðir af NASA til að draga úr hraða m.a Gemini-geimfaranna á leið til jarðar og því hannaðir til að veita gríðarlega loftmótstöðu.  Númerið 5 vísar til þess að þessi dreki er byggður á 5 útgáfu af drekanum en þær voru 9 talsins.  Búið er að endurbæta drekann og gera hann "flugvænni" ef svo má að orði komast.

 

Í upphafi var teikning . . .

Ég fann teikningar á netinu hérna og byrjaði að skoða þær.  Mér leist strax vel á þetta verkefni - ekki síst vegna þess að eigandi síðunnar sagði að það væri mjög einfalt að búa þennan flugdreka til. 

Fyrst skoðaði ég hvað þurfti til og fór svo á http://www.kitebuilder.com og pantaði efni.  Ég held að það sé óhætt að segja að  Kitebuilder.com sé örugglega með bestu stöðum sem völ er á til að versla efni til flugdrekagerðar.  Ég pantaði  500 fet af 100 kg Dacron línu (sem átti að nota sem fluglínu og í styrkingu á saumum) og 500 fet af 40 kg Dacron línu sem ég ætlaði í bremsulínur og beysli (bridle).  Þá pantaði ég helling af .75 únsu ripstop næloni - auðvitað í KA-litunum (gult og blátt). 

Hægt er að útbúa NPW5 í hvaða stærð sem er en ég ákvað að hafa hann 2,6 fermetra - það væri ekki of  stórt til að byrja með en nógu stórt til að taka vel í og gefa hugmynd um hvernig svona dreki hegðar sér. 

Til að fá öll mál rétt er hægt að sækja forrit á netið sem reiknar allar stærðir út á seglinu sjálfu og ekki síst beyslið(bridle) sem er ansi flókið. Nóg er að slá inn stærðina (2,6 metrar í þessu tilfelli) og þá fær maður allar teikningar og útreikninga miðað við þá stærð.

Þegar þetta er búið þarf að prenta teiknigarnar út og byrja að sníða allt efnið til og undirbúa saumaskapinn. 

Hér til hliðar má sjá skjámynd af forritinu sem reiknar út beysli og segl. 

 

Vandaðasta aðferðin við að skera ripstop-nælon er að hotcut-ta það með lóðbolta eða álíka verkfæri til þess að efnið rakni ekki en ég notaði einfaldlega dúkahníf sem gafst ágætlega. 

Gott er að merkja á efni með krít sem er hægt að fá í föndurbúðum og sníða svo eftir línunum.  Þegar verið er að sníða og mæla efnið er nauðsynlegt að vanda sig og fylgja málum og gera ráð fyrir uppábrotum allt eftir þvi hvað teikningarnar segja til um.  Þar sem ég hef ekki fengist svona verkefni áður gerði ég mörg mistök og meðal þeirra var að klikka á hornamælingu þegar ég var að sníða aðalseglið.  Það var til þess að ég varð að stytta seglið um nokkra sentimetra. Jafnvel minnstu breytingar á sniði geta haft mikil áhrif á flugeiginleika og því mikilvægt að vanda alla verkþætti og það er ekki ólíklegt að þessi breyting komi niður á flughæfni drekans.

Önnur mistök sem ég gerði var að breiða úr seglinu á miðju stofugólfinu þannig að heimasætan steig á það og og reif það eftir endilöngu.  Það kom þó ekki að sök enda nóg efni til og allt endaði vel .Smile

 

Saumar 101 

Ég notaði venjulega saumavél  til þess að sauma drekann og keypti sérstyrktan, svartan þráð í saumavörubúð en það er nauðsynlegt að þráðurinn sé öflugur þar sem álag á saumana getur verið mikið og hætta er á að þeir gefi sig ef þráðurinn er ekki nægilega sterkur. 

Venjulega er notað zikk-zakk spor til að sauma svona dreka og verður maður að prófa sig áfram með það hversu þétt sporið á að vera en Það má ekki vera of þétt því það getur í raun veikt efnið þar sem nálargötin verða of mörg.  

 

Gott er að taka bút af efninu sem á að nota og prófa síg áfram með mismunandi spor og munstur auk þess sem efnið er sleipt l og því þarf að passa að vélin dragi það rétt í gegn og stoppi ekki og hjakki í sama sporinu.

Eitt það erfiðasta við að sauma drekann var tvímælalaust að sauma vængina á miðjuna ef svo má að orði komast (bláu fletirnir á myndunum).  Bæði eru saumarnir langir og því glettilega erfitt að halda línunum beinum en auk þess eru saumarnir styrktir með 100 kg línu.  Efnið er þá tvíbrotið saman með línuna á milli og svo er saumað með zikk-zakk munstri yfir.  Það reyndist þrautin þyngri að fá brotið og línuna til að halda sér á meðan saumað var.  Þá er efnið sem fer í gegnum vélina mjög fyrirferðarmikið og því erfitt að keyra það í gegnum vélina.

 

Spagettí 

Að sníða beyslið (bridle) á NPW5 er talsverð handavinna og þræðirnir eru ansi margir og minna stundum á spagettí.  Þeir þurfa allir að vera að nákvæmlega réttri lengd og rétt festir á drekann en á teikningunum eru allir tengipunktar merktir vandlega inn.  Til að festa línurnar á drekann notaði ég bréfaklemmu sem ég hitaði yfir eldi og svo stakk ég gat á seglið, sitt hvoru megin við styrktarlínuna á saumnum.  Þetta er gert til að síður rifni út frá götunum og að efnið rakni upp.

Mikilvægt er að brenna(bræða) alla enda á línum sem eru notaðar til að þær losni ekki upp.  Fyrir fluglínur ætlaði ég að nota línurnar sem ég keypti en þær voru allt of klunnalegar og þungar þannig að ég tók aðrar línur sem ég átti og notaði í staðinn og einnig handföng. Þegar búið er að ganga frá beyslinu og flúglínunum er hægt að fara út og fljúga. 

 

Útkoman 

Þótt að drekinn sé ekki mikið augnayndi þá flýgur hann ágætlega og það er gaman er að fljúga honum - sérstaklega í hífandi roki.  Þá tekur hann töluvert í og lætur ágætlega að stjórn og hefur nokkuð gott svið í vindglugganum. Þá er auðvelt er að bakka honum og bremsa. Nefið öðru megin er ekki alveg eins og það á að vera og stundum brotnar drekinn þeim megin en þó auðvelt er að koma honum í samt lag. 

Ég get hiklaust mælt með þessum dreka ef menn hafa áhuga á flugdrekasmíði og langar til að sauma skemmtilegan, kraftmikinn flugdreka.

Til að ræða þessa grein er hægt að fara á spjallþræði Kite.is  

 

Ůetta netfang er vari­ fyrir ruslpˇsti, ■˙ ■arft a­ hafa Javascript virkt til a­ sko­a ■a­

 

 

 

Hefur­u smÝ­a­ flugdreka?
 

kitelife
© 2022 K I T E . I S
Joomla! is Free Software released under the GNU/GPL License.